...smábæjarblús...
Ég rakst á þessa litlu sögu á blogginu hans Helga Seljan, Kastljósmanns með meiru. Hann er uppalinn á Reyðarfirði og tilheyrir hinni ógurlegu Reyðarfjarðarmafíu sem hefur verið rætt um og ritað í gríni og alvöru, ásamt Andra Frey Viðarssyni (sem sást síðast fullur í bílahermi í Kastljósinu, ætli „mafían” hafi haft puttana í því?!) og fleiri vinum þeirra félaga.
Smábæjarfólk er mjög misjafnt, sumir geta ekki beðið eftir tækifæri til að komast í burtu, hvert sem er en aðrir eru bara smábæingar fram í fingurgóma og finna sig ekki í henni „stóru” Reykjavík.
Nú verður bara að segjast eins og er að mín reynsla af því að búa í smábæ var ekki góð. Hún var reyndar ekkert svo voðalega slæm fyrir mig persónulega þótt vond hafi verið (enda lögðu ýmsir mikið á sig til þess að svo yrði) og viðkvæmari manneskja hefði kannski farið verr út úr því. Nei, ég geri mér grein fyrir því að ég slapp ágætlega út úr þessu öllu saman en eftir þessa (bitru) reynslu er einhver rómantísk hugsun um kósí smábæjarlíf ekki til í mínum huga. Ef ég neyddist til að flytja af höfuðborgarsvæðinu myndi ég flytja á einangraðan sveitabæ þar sem væru engir nágrannar í minnst 15 kílómetra fjarlægð!
Nálægðin við nágrannana í smábæjum er nefnilega of mikil á köflum. Eins og einn aðkomumaðurinn komst að orði þá kúkaði hann á morgnana og á hádegi vissi allur bærinn hvernig það hefði verið á litinn! Þessi maður kom til að kenna í grunnskólanum þegar ég var búin að búa þarna í 1 ár (var þá í 8.bekk) og hafði einmitt séð smábæjarlífið í þessum rósrauða bjarma, hann hafði ímyndað sér að hann myndi bara fá sér húsnæði, kenna, fara út í búð, kúra með konunni sinni í skammdeginu yfir vídeói í þögulli fjallakyrrð en hann reiknaði ekki með fólkinu. Fólkið í smábæjum er nefnilega það sem gerir þá að helvíti á jörð. Í smábæjunum er nefnilega ákveðið fólk sem ræður. Þótt það hafi engin kjörin embætti þá ræður það bara. Það ákveður hvaða hlutverk aðkomufólk fær í bænum og guð hjálpi þeim sem reyna að segja eitthvað sem stríðir á móti heimsmynd þessa fólks (eins og grey leikfélagskonan í sögunni hans Helga) eða reyna að finna sér eitthvað annað hlutverk. Enda fór það svo að þessi yndislegi maður hrökklaðist frá staðnum í skugga kjaftasagna og leiðinda og flutti aftur til Reykjavíkur, læknaður af smábæjarrómantíkinni. Ég kalla hann í dag hiklaust einn af mínum bestu kennurum og áhrifavöldum þrátt fyrir að hann hafi ekki verið menntaður kennari og bara kennt mér einn vetur, hann sagði okkur svo mikið um lífið, hann hafði gert svo margt og upplifað svo margt og hafði skoðanir á öllum hlutum. Hann var bara miklu meira en kennari og þannig fólk vantar sárlega í smábæjarflóruna.
En nei, fólkið sem ræður vill ekki svoleiðis fólk. Ekki fólk með skoðanir (ef þær eru öðruvísi), ekki fólk sem sér margar hliðar á málunum, ekki fólk sem er ekki „rétt” fólk.
Og guð hjálpi þeim ef einhver fær eitthvað örlítið meira en það sjálft. Þar sem ég bjó var alltaf haldinn jóladansleikur/fyllerí í félagsheimilinu á annan í jólum. Aldurstakmarkið á böllin á þessum tíma var 16 ár og miðað við fæðingarár, ekki afmælisdag. Um áramót fengu því allir 10.bekkingar að fara á böllin en sú hefð hafði komist á að hleypa þeim á jólaballið líka, sumsé allir á undanþágu frá almennum lögum og reglum. Ég og önnur stelpa í bekknum mínum vorum ári á undan í skóla og því ári yngri en bekkjarfélagar okkar (en samt bara mánuður á milli okkar og yngsta bekkjarbróður þar sem við eigum báðar afmæli í janúar). Okkur fannst nú svolítið súrt að fá ekki að vera með okkar bekkjarfélögum og bestu vinum í þessari manndómsvígslu sem fyrsta „fullorðins” skemmtunin er (fermdumst t.a.m. báðar með bekknum okkar ári á undan og gerðum já bara allt með bekknum, kepptum á íþróttamótum og þar fram eftir götunum) svo að við pöntuðum fund með sýslumanni og sóttum formlega um undanþágu fyrir þetta eina ball. Tókum m.a.s. skýrt fram að okkur langaði bara til að vera með á þessu fyrsta balli og myndum ekki sækjast eftir því að fara á önnur böll um veturinn. Þetta tók hann vel í og gaf okkur samþykki sitt og við fórum út af skrifstofunni himinsælar og sögðum hinum krökkunum frá því. Nokkrum dögum síðar var þetta samþykki hins vegar dregið til baka þar sem nokkrar mæður barna í bekknum fyrir neðan okkur höfðu heyrt af þessu og þrammað ævareiðar á fund sýsla og sagt að ef við fengjum undanþágu til að mæta á þetta ball þá skyldu þeirra börn sko fá hana líka! Því miður var leyfið sem við fengum ekki skriflegt og því var það fyrirvaralaust afturkallað. Ég var ekki einu sinni látin vita heldur frétti ég þetta að mig minnir frá hinni stelpunni (sem var þó dóttir eins aðalkallsins í bænum). Þetta er öfund og afbrýðissemi og ekkert annað, að við fengjum eitthvað skemmtilegt sem aðrir fengju ekki var náttúrulega bara ekki hægt...
Ég svindlaði mér bara í staðinn mjög ólöglega inn á áramótaballið og komst að því að það var bara ekkert eftirsóknarvert við þessa skemmtan hvort sem er! Sýslumanninn leit ég aldrei sömu augum eftir þetta og fyrir mér var hann bara einhver grínfígúra sem lét stjórnast af dyntum annarra í staðinn fyrir að standa með sínum ákvörðunum. Hann er í dag sýslumaður í mun stærra byggðarlagi og ég vona að hans stjórnarhættir séu aðrir þar.
En ég held að það megi draga hugsunarhátt smábæjarbúans í eina setningu; hjá honum er alltaf meira af úlföldum heldur en mýflugum...