...svefn í vöku...
Það er skrítið að geta ekki sofið. Svefn er eitthvað sem allir þurfa, þótt enginn viti hvers vegna, og það er vont að fá ekki það sem maður þarf. Ég virðist einmitt vera að sigla inn í svefnleysistímabil enn einu sinni en undanfarin ár hafa svona tímabil komið upp öðru hvoru og staðið í mislangan tíma, yfirleitt bara nokkra daga en stundum upp í nokkrar vikur.
Fyrst reyndi ég allt til að sofna; heitt og róandi te, hituð mjólk, heitt bað (heitt á greinilega að vera róandi!), náttúrulyf, náttúruhljóð, svefngrímu (ef það var sumar) og ýmislegt fleira. Fæst af því virkaði. Eftir að hafa talað við lækni sem neitaði að skrifa upp á svefnlyf (sagði að ég væri of ung til að fá svoleiðis (þetta var fyrir löngu síðan)) ákvað ég að ef líkaminn vildi vera vakandi þá skyldi ég bara vera vakandi, ég hef nefnilega mjög lítinn sjálfsaga og leyfi mér oftast að gera það sem ég vil.
Og síðan þá hef ég farið í gegnum þessi tímabil svefnleysis án þess að reyna nokkuð til að koma í veg fyrir þau og finnst það eiginlega bara æði. Ég er nefnilega næturdýr í eðli mínu og þótt þetta 9-5 samfélag okkar hafi næstum náð að berja það niður þá líður mér afskaplega vel á nóttunni þegar ég vaki svona.
Yfirleitt reyni ég að lesa, skoða nýjungar á gagnvarpinu eða horfa á dvd (einhverra hluta vegna finnst mér það hálf róandi að horfa á ofbeldisfullar og blóðugar myndir á nóttunni) en á meðal þess sem ég hef tekið mér fyrir hendur eru einstaklega nýtískulegar hárgreiðslur og förðun í stíl (klippti í eitt skiptið á mig topp því það var svo langt síðan ég var með topp síðast að ég mundi ekki hvernig ég leit út með svoleiðis), tekið alla venjulega t-boli sem voru í fataskápnum mínum og gert tilraunir til að búa til eitthvað flottara úr þeim með bitlaus skæri og öryggisnælur að vopni, geisladiska-dómínó, skrúfað vídeótækið mitt í sundur og skoðað innvolsið, farið út að skokka (þótt ég hafi aldrei gert það áður eða síðan), gert lista yfir hitt og þetta í lífinu og ýmislegt fleira. Og ég á örugglega eftir að gera eitthvað meira!
Málið er bara að þegar maður leggst niður og sofnar þá missir maður af þessum tíma. Þetta er það næsta sem maður kemst því að vera einn í heiminum, engin hljóð nema í einstaka fugli þegar sólin er komin upp. Ég er alveg til í að fórna nokkrum nóttum fyrir gæðatíma með sjálfri mér, ég veit alveg að þetta er tímabil sem gengur yfir og að einn góðan veðurdag (eða kvöld) kemur svefninn minn aftur og allt verður í stakasta lagi.
En þangað til er ég auðvitað ómöguleg í vinnu og í skóla, er t.d. að fara í próf á morgun (á eftir) og verð bara að vona að ég sofni ekki fram á borðið. Það er alveg satt sem er sagt í Fight Club (sem er ein af uppáhalds næturmyndunum mínum); When you have insomnia, you're never really asleep... and you're never really awake.
En nóttin var þess virði, ég sá fallega sólarupprás og upplifði kyrrð næturinnar og það er nóg fyrir mig...