...ferðasaga eystri...
Við erum komnar í bæinn úr þessari dásamlegu ferð!
Lögðum af stað frekar seint á föstudaginn og mættum á tjaldstæðið í Haukafelli* að verða 2 um nóttina, hentum tjaldinu upp og fórum að sofa. Daginn eftir var ættarmótið hennar Völlu og á meðan fórum við Hildur í hike upp í dal þarna fyrir ofan, sáum sko voða fínt kort með gönguleiðum og ákváðum að fara gulu leiðina, nema við fundum aldrei gulu leiðina og fórum í staðinn bara þangað sem okkur langaði til að fara! Borðuðum suðusúkkulaði, týndum grös, príluðum upp á smá hæð (sem var auðvitað stórt fjall þegar við segjum frá því) og drukkum í okkur hrikalega jökulsorfna náttúruna. Dásamlegt!!
Þar sem við vorum búnar að pakka öllu niður áður en við lögðum af stað fórum við beint í bílinn þegar við komum niður og akkúrat þegar við keyrðum út af tjaldstæðinu kom rigning. Hversu heppnar erum við?!
Héldum í rigningunni niður á Höfn til að finna sturturnar í ferðamannamiðstöðinni, hringdum sko í sundlaugina kl 17:53 og svarið hjá starfsmanni var (nánast) orðrétt; það lokar eftir sjö mínútur, velkomin í sveitina! En fín sturta, náðum svo í Völlu og keyrðum eftir malarslóða inni á landareign afa hennar og ömmu (sjá mynd (hækið okkar var inn dalinn til hægri á myndinni)) til að finna okkur nýjan náttstað. Við vorum nefnilega búnar að ákveða að reyna að vera bara útaf fyrir okkur svo við a) gætum verið eins ‘silly’ og háværar og okkur sýndist og b) gætum sungið og spilað og samið án þess að annað fólk byði sér með í partíið. Enda nenni ég ekki að spila ‘útilegulög’, bara lög sem mér finnst skemmtileg!
Laugardagskvöldið var líka æði, borðuðum aaaallt of mikið (það var samt ekkert kjöt með í ferðinni og ég held að það hafi komið a.m.k. 4 sætar kartöflur óeldaðar til baka) og drukkum alveg ágætlega (samt kom heill kassi af hvítvíni óopnaður til baka) og hlógum og sungum og sömdum og... og... og... Vá hvað það var gaman, mér er illt í gítarputtunum af áreynslu! Ég þarf greinilega að fara að taka oftar í hann á milli ferða til að halda sigginu við :P
Klukkan hálf sex morguninn eftir vaknaði ég samt skjálfandi úr kulda og stífluð í hausnum og ákvað að fara út og hoppa aðeins mér til hita. Um leið og ég stakk hausnum út úr tjaldinu fann ég að það var mun hlýrra útifyrir en inni í tjaldinu þar sem skugginn af bílnum kom í veg fyrir að sólin skini á það. Ég sá ekki fyrir mér að stíflaði hausinn minn myndi sofna í bráð svo ég kom mér fyrir í tjaldstól og sat þar og las í morgunsólinni, það var æði. Upp úr sjö var ég búin að fá nóg og sólin farin að skína á tjaldið svo ég skreið aftur undir sængina mína og svaf í smástund.
Lögðum svo af stað í bæinn um tvöleytið á sunnudag og stoppuðum við Jökulsárlón þar sem við gerðumst alvöru túrhestar og fórum í bátsferð út á lónið í glampandi sól. Fengum líka að smakka á þúsund ára gömlu klakastykki sem var brotið niður fyrir augunum á okkur! Eins og leiðsögukonan sagði, sennilega það elsta sem við munum nokkurn tíma bragða á! Svo dóluðum við okkur bara í bæinn, rigning á leiðinni svo við stoppuðum ekki mikið en fórum samt Krýsuvíkurleið frá Hveragerði í bæinn svo við vorum frekar seint á ferðinni.
Er að hugsa um að enda þetta á hæku um hækið okkar:
Fjallið stendur hátt,
lækur liðast um gilið.
Fótspor í mosa.
__
* Haukafell er rétt hjá Fláajökli sem er skriðjökull úr Vatnajökli. Móðurfjölskylda Völlu býr í Holtaseli sem er skammt frá og eiginlega alveg undir jöklinum.