Þrátt fyrir að íslenska sé gegnsýrð af enskum áhrifum, orðaröð breytist án þess að fólk hafi tilfinningu fyrir því að það sé að tala vitlaust og að slettur og enskir frasar séu jafnvel tamari á tungu en rammíslenskir málshættir og orðtök þá erum við ekkert nema lubbalegir og sveitó Íslendingar inn við beinið. Það kemur aldrei betur í ljós en þegar meirihluti Íslendinga fer að rembast við að tala ensku (og önnur mál) sem þeir halda að þeir kunni svo vel en renna svo hratt og örugglega á rassinn þegar það kemur að framburði og orðaforða. Sem leiðir mig aftur að því sem varð kveikjan að þessum skrifum:
Af hverju í ósköpunum er ekki hægt að fá manneskju með lágmarkshæfni í enskum framburði til að lesa inn á sjónvarpsauglýsingar fyrir ný myndbönd?
Þetta hljóðvillta fífl sem hefur séð um þetta undanfarið hefur á einhvern óskiljanlegan hátt náð að koma minnst 5 framburðarvillum inn í hverja auglýsingu sem hann les, þótt eina útlenskan í textanum séu heiti kvikmynda og nöfn leikara. Sem dæmi má nefna þegar kvikmyndin V for Vendetta var kölluð V for VAndetta, rómantíska gamanmyndin Failure to Launch (réttur framburður: lontsj) varð Failure to Lounge (frb: lánds) og það nýjasta hjá honum er að kynna tvær myndir með leikkonunni Jennifer Connelly í sama pakkanum og tekst að bera nafnið fram á tvo mismunandi vegu, sem hvorugur er réttur. Í SÖMU AUGLÝSINGUNNI!!!
Mér finnst pínlegt að hlusta á manninn. Yfirleitt eru svona kynningaraddir valdar með það í huga að þær komi efninu skammlaust frá sér en þetta er fáránlegt, hann hlýtur að hafa sofið hjá einhverjum til að fá þetta starf!
Þekkir einhvert ykkar þennan mann? Eruð þið til í að segja honum að það sé hlegið að honum fyrir þetta? Kannski koma honum á framburðarnámskeið í ensku eða senda hann í tíma hjá ameríska, djúpraddaða gaurnum sem les inn á trailera. Eða kannski bara segja honum að fá sér nýja vinnu...